Atvinnu og verslunarhúsnæði hefur lækkað hratt í verði langt umfram íbúðarhúsnæði. Ingibjörg Þórðardóttir formaður Félags Fasteignasala segist vita mörg dæmi þess að fólk horfi fram á gjaldþrot vegna þess að lánin hafi hækkað langt umfram verð.
Ingibjörg segir að fjárfestar séu fyrir löngu farnir að halda að sér höndum. Það sé frost á þessum markaði. Innlánsvextir séu sextán prósent og miklu hærri en það sem atvinnuhúsnæði á rándýrum lánum gefi af sér..Tæplega fimmtíu þúsund fermetra stórvöruverslanamiðstöð við Vesturlandsveg sem átti að opna í ágúst opnar ekki fyrr en í október og þá ekki undir fullum seglum. Deilt er við leigutaka sem vilja draga sig í hlé þrátt fyrir að hafa undiritað fullgilda leigusamninga. Arnar Hallsson framkvæmdastjóri Stekkjabrekkna sem á húsið segir að erfiðleikar blasi mest við smærri fjárfestum sem hafi ekki tryggt leigusamninga. Það hafi verið gert að stórum hluta þegar ráðist var í framkvæmdir við Korputorg.