Atvinnuleysi var 1,1% í júlí

Skráð atvinnuleysi í júlí 2008 var 1,1% og voru að meðaltali 1968 manns á atvinnuleysisskrá. Hlutfall atvinnuleysis er því óbreytt frá júní og er atvinnuleysi enn með minnsta móti, að sögn Vinnumálastofnunar.  Atvinnuleysi er nú nokkru meira en á sama tíma fyrir ári þegar það var 0,9%.

Í dag eru 2538 skráðir atvinnulausir á landinu öllu, að því er kemur fram á vef Vinnumálastofnunarinnar. Stofnunin segir, að oft minnki atvinnuleysið milli júlí og ágúst. Í fyrra minnkaði atvinnuleysið um 6,5% milli þessara mánaða g var þá 0,9% í ágúst. Vegna samdráttar hjá mörgum fyrirtækjum svo og aukinna hópuppsagna sé líklegt að atvinnuleysið í ágúst 2008 muni aukast og verða á bilinu 1,1%-1,4%.

Atvinnuleysi jókst á höfuðborgarsvæðinu um 10% í júlí og var 1,1% en var 1% í júní. Munar þar mest um aukið atvinnuleysi meðal kvenna þó atvinnuleysi karla jókst lítið eitt. Á landsbyggðinni breytist atvinnuleysi lítið og sé 1,3% eða sama og í júní, minnkaði nokkuð meðal kvenna en jókst að sama skapi lítið eitt meðal kvenna.  

Þeim sem verið hafa á skrá lengur en 6 mánuði fjölgaði lítilsháttar og voru 500 í lok júlí en 477 í lok júní. Það var 231 atvinnulaus  í meira en eitt ár í júlí og hefur fjöldi þeirra minnkað lítið eitt síðustu mánuði. 

 Skýrsla Vinnumálastofnunar um atvinnuástand í júlí

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert