Ekkert pláss í fangelsunum

136 fangar hafa setið í íslenskum fangelsum að meðaltali á degi hverjum það sem af er árinu 2008. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun eru alls 137 rými í fangelsum landsins að meðtöldum einangrunarrýmum, sem eru samtals átta talsins. Því er nánast hundrað prósenta nýting á fangelsunum það sem af er ári.

Fleiri afplána en rými er fyrir

Í dag afplánar 131 einstaklingur óskilorðsbundna dóma í íslenskum fangelsum. Auk þeirra sitja fjórtán einstaklingar í gæsluvarðhaldi, þar af fjórir í einangrun. Hinir tíu eru í svokallaðri lausagæslu og fylla því venjuleg afplánunarrými. Alls sitja því 145 manns í fangelsi hérlendis. Rýmin í íslenskum fangelsum að meðtöldum einangrunarklefum nægja því ekki til að hýsa þá alla.

Líkt og kom fram í 24 stundum í gær þurfa alls fjórtán fangar að deila klefum með öðrum um þessar mundir þrátt fyrir að endurbætt fangelsi á Akureyri sé komið í fulla notkun. Þar af er tvímennt í þremur klefum á Litla-Hrauni. Við þessari miklu fjölgun hefur verið brugðist meðal annars með því að láta þá sem dæmdir eru til vararefsingar vegna fésekta sinna samfélagsþjónustu. Meðaltalsfjöldi þeirra sem afplána slíkar í fangelsi hefur því hríðlækkað. Um átta manns sátu í fangelsum á degi hverjum árið 2004 vegna vararefsinga, en meðaltal þeirra nær ekki einum það sem af er þessu ári.

Ástandið á eftir að versna

Þessu til viðbótar hafa 148 manns verið boðaðir til afplánunar án þess að hafa hafið hana. Hluti þess hóps hefur sótt um að taka út refsingu sína með samfélagsþjónustu, en slíkt býðst öllum þeim sem hljóta hálfs árs óskilorðsbundinn dóm eða skemmri. Þeir sem hafa fengið frestun á að hefja afplánun tilheyra einnig þessum hóp. Auk þessara 148 hafa um 60 óskilorðsbundnir fangelsisdómar borist Fangelsismálastofnun nýverið til fullnustu. Því eru alls 208 dómar sem á eftir að afgreiða.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka