Fjölmennt er á íbúafundi í Borgarnesi þar sem fundað er um framtíð Sparisjóðs Mýrasýslu. Fram hefur komið að áætlað tap samstæðu sparisjóðsins á fyrstu sex mánuðum ársins er um 4,6 milljarðar króna.
Á fundinum fullvissaði Gísli Kjartansson sparisjóðsstjóri fundarmenn um það að innistæður þeirra í sparisjóðnum væru tryggar. Í máli hans kom fram, að tap sjóðsins mætti að mestu rekja til lækkunar á gengi bréfa fjögurra fjármálafélaga, sem fjárfest var í og tengjast öll sparisjóðunum. Þessi fyrirtæki eru Exista, Kista, VBS fjárfestingarbanki og Icebank.
Um 500 manns mættu á fundinn. Ekki var um hitafund að ræða en þungt hljóð var í fundargestum. Á fundinum útskýrðu stjórnendur sparisjóðsins hvers vegna staðan sé jafn slæm og raun beri vitni.
Stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu mun leggja fyrir fulltrúaráð sparisjóðsins á föstudag, að stofnfé sjóðsins verði aukið um 2 milljarða króna.