Fréttamenn bíða í Ráðhúsinu

Fréttamenn bíða í Ráðhúsi Reykjavíkur nú síðdegis.
Fréttamenn bíða í Ráðhúsi Reykjavíkur nú síðdegis. mbl.is/Frikki

Stór hópur fréttamanna bíður nú í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn Reykjavíkur, Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarfulltrúi, hafa setið á fundi síðdegis og rætt um leiðir til að styrkja samstarfið í meirihluta borgarstjórnar.

Jakob Frímann Magnússon, miðborgarstjóri, var einnig á fundinum. 

Til stóð að þau Hanna Birna og Ólafur ættu fund um hádegisbil í dag til að ræða ýmis mál en sá fundur dróst, m.a. vegna þess að fundur skipulagsráðs Reykjavíkur, sem haldinn var í morgun, var mun lengri en áætlað var.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is hafa sjálfstæðismenn talið að þrír möguleikar væru á breytingum á samstarfinu. Í fyrsta lagi að breyta hlutverkaskipun í núverandi meirihluta. Í öðru lagi, að fá Framsóknarflokkinn til liðs við núverandi meirihlutaflokka. Loks hefur verið nefndur sá möguleiki, að slíta samstarfinu við F-listann og taka upp samstarf við Óskar Bergsson, Framsóknarflokki.

Undirliggjandi þreytu og óþolinmæði hefur gætt meðal sjálfstæðismanna um nokkurt skeið og ekki hafa skoðanakannanir bætt úr skák. Þær raddir heyrast að erfiðir tímar séu í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Því sé ábyrgðarhluti að renna ekki stoðum undir samstarfið þannig að meirihlutinn verði vandanum vaxinn.

Þá er óánægja meðal sjálfstæðismanna með það hvernig umræða hefur þróast um skipulags- og samgöngumál, m.a. vegna Listaháskólans og vegna Bitruvirkjunar. Ólafur F. Magnússon hefur sagt að virkjunin hafi verið slegin af, en það stangast á við orð Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa og stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur. Einnig hafa mannaráðningar borgarstjóra í Ráðhúsið farið fyrir brjóstið á sjálfstæðismönnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert