Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri Landverndar segir einsýnt að framkvæmdir vegna orkuflutninga og orkuöflunar í Helguvík fari í heildstætt umhverfismat.
Hann segist reikna með að Skipulagsstofnun taki þá ákvörðun enda séu fordæmin nú fyrir hendi, að öðrum kosti muni Landvernd kæra málið til ráðherra. Hann segir þetta geta þýtt meiri tafir fyrir sunnan en það þýði fyrir framkvæmdir við álver á Bakka.
Í úrskurði ráðherra vegna kæru Landverndar sem vildi að allar framkvæmdir vegna álversins í Helguvík færu í heildstætt umhverfismat kemur fram að niðurstaðan feli ekki í sér afstöðu ráðuneytisins til annarra matsskyldra framkvæmda sem tengist álveri í Helguvík.
Allt að fjögurhundruð manns skrifuðu undir áskorun til umhverfisráðherra að láta heildstætt umhverfismat vegna álvers á Bakka ekki tefja framkvæmdir.
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra fékk listann afhentan í gærkvöldi á fundi á Húsavík þar sem hún varði þann úrskurð sinn að láta framkvæmdir við álver á Bakka í heildstætt umhverfismat.