Lögreglan á Snæfellsnesi fann töluvert magn fíkniefna við húsleit á Hellissandi í fyrrinótt. Fram kemur á fréttavef Skessuhorns, að lögreglumenn höfðu verið við umferðareftirlit við Haffjarðará þegar þeir höfðu afskipti af manni og konu, en konan var grunuð um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Sá grunur reyndist á rökum reistur og var fólkið flutt í Borgarnes þar sem teknar voru blóðprufur. Í framhaldinu heimiluðu þau húsleit. Lögreglan fór því og leitaði í tveimur húsum, báti og bílum.
Í öðru húsinu fundust um 20 grömm af hvítu dufti og rúmlega 5 grömm af ætluðum kannabisefnum.
Fíkniefnahundurinn Tíri aðstoðaði við leitina og lögreglumenn úr
Borgarnesi.