Sátt um breytingar á Nýbýlavegi

Hringtorgið við Lund.
Hringtorgið við Lund. mbl.is/RAX

Kópavogsbær segir, að tekist hafi sátt um breytingar á Nýbýlavegi í samræmi við tillögur bæjarráðs Kópavogs frá því í júní, um færslu á veglínu í suður frá fjölbýlishúsi við Lund 1. Verður hringtorg við Nýbýlaveg fært sex metra frá húsinu.


Með úrskurði sýslumannsins í Kópavogi 23. júní sl. var að kröfu húsfélagsins að Lundi 1 lagt lögbann við vegaframkvæmdum næst húseigninni. Við þingfestingu í héraðsdómi Reykjaness 3. september nk. verður lögð fram dómssátt, undirrituð í gær, sem kveður á um að veglína Nýbýlavegar og Lundarbrautar og hringtorg á Nýbýlavegi suðaustan við fasteignina Lund 1 verði færð fjær húsinu um sem nemur u.þ.b. 6 metra.

Strætisvagnabiðskýli verður auk þess fært lengra til vesturs en ákveðið hafði verið og gerð hljóðvistarmannvirkja flýtt.

Með dómssáttinni fellur framangreint lögbann niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert