Segir boltann nú hjá Vegagerðinni

Frá slysstað á Suðurlandsvegi í vikunni.
Frá slysstað á Suðurlandsvegi í vikunni. mbl.is/Júlíus

Afnám hættulegrar beygju við Kotströnd á hinum mjög svo hættulega kafla Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss, er meðal tillagna sveitarstjórnarmanna á Suðurlandi við tvöföldun Suðurlandsvegar. Fjöldi alvarlegra slysa hefur orðið á vegkaflanum á liðnum árum.

Ólafur Áki Ragnarsson bæjarstjóri Ölfuss segir sveitarstjórnir Árborgar, Ölfuss og Hveragerðis hafa komist að skipulagsniðurstöðu um nýjan veg um síðustu áramót. Tilgangslaust sé þó að auglýsa skipulagið fyrr en Vegagerðin hafi sagt sína skoðun á hlutum eins og mislægum gatnamótum, tengivegum og slíku.

Ólafur Áki segir því boltann hjá Vegagerðinni. Vegagerðin segir að matsáætlun fyrir tvöföldun vegarins milli Hveragerðis og Reykjavíkur væntanlega um næstu áramót. En lengra sé hins vegar í áætlun fyrir kaflann milli Hveragerðis og Selfoss. Skýringin sem Vegagerðin gefur á því er sú, að kaflinn sé nær byggðum og því flóknari en vestari kaflinn og töluvert eigi eftir að vinna í skipulagsmálum. Sú skýring stangast á við staðhæfingu Ólafs Áka, sem segir orðrétt: „Okkar mál eru algerlega klár.“

Ummælum Kristjáns Möllers samgönguráðherra, að sveitarfélögin hafi tafið vegbætur á hinum hættulegu köflum, lýsir Ólafur Áki sem vitleysu.

Hér virðist ekki deilt um markmiðið, sem er að tvöfalda Suðurlandsveginn. En ljós er að mönnum ber hins vegar ekki saman um stöðu málsins á þessu stigi.

Mönnum ber þó saman um hættur á veginum og slysasagan dylst engum. Formaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa, Ágúst Mogensen, segir kaflann milli Hveragerðis og Selfoss mjög hættulegan og tvöföldun eina ráðið til að útrýma framanákeyrslum. Hann lýsir einnig áhyggjum af fjölmörgum ómerktum vegamótum.

„Bílar eru að stöðva á þjóðveginum við afleggjara heim að bæjum og býlum en það er mjög mismunandi hvort þar eru þokkalegar vegaxlir,“ bendir hann á. „Það segir sig sjálft að mjög erfitt er að halda góðu og öruggu flæði á slíkum vegi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert