Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokks, sagði þegar hann kom til fundar við Hönnu Birni Kristjánsdóttur í Ráðhúsinu í kvöld, að hann vænti þess að í formlegum viðræðum þeirra um nýjan meirihluta yrði byggt á málefnasamningi flokkanna frá því þeir mynduðu meirihluta í upphafi kjörtímabilsins.
Hann sagði aðspurður, að rætt hefði verið í morgun um þann möguleika að mynda nýjan meirihluta svonefnds Tjarnarkvartetts, þ.e. Samfylkingar, VG, Framsóknarflokks og Margrétar Sverrisdóttur. Síðan hefði komið í ljós að enginn fótur var fyrir slíku. Einnig hefði ýmislegt breyst á kjörtímabilinu. Óskar sagðist hafa verið í samstarfi við Tjarnarkvartettinn frá því í janúar en alltaf verið þar í minnihluta.
Óskar sagði, að meðal þess sem þau Hanna Birna myndu ræða væri svonefnt REI-mál, sem fyrra samstarf flokkanna sprakk á í október. Hann sagði að farið yrði yfir hvernig því máli yrði lent og mikilvægt væri að flokkarnir næðu niðurstöðu í því máli.
Verður góður meirihluti
Þegar hann var spurður hvers vegna borgarbúar ættu að trúa því að sá meirihluti, sem verið er að mynda, muni halda út kjörtímabilið, sagði hann að þetta væri eðlileg spurning. „En til að hjálpa fólki, að gera það upp við sig að þetta sé gott samstarf, sem er í burðarliðnum, verður að horfa til þess góða samstarf sem var fyrstu 16 mánuði kjörtímabilsins," sagði Óskar
Hann sagði þegar flokkarnir hefðu gert upp REI-málið væri hann viss um að það taki við góður meirihluti á grunni þess gamla. „Það sem skiptir máli í pólitík og lífinu er að setja stundum hluti aftur fyrir sig og halda áfram og það ætlum við að gera nú."
Óskar sagði, að miklar viðræður hefðu verið milli aðila í flokkunum en tilboð um viðræður um málefnasamning kom í dag. Hann sagðist hafa rætt við Marsibil Sæmundsdóttir, sem er varamaður flokksins í borgarstjórn.
Naut sín vel í minnihlutanum
Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, var spurður um þau ummæli Óskars, að hann hefði verið í minnihluta í minnihlutanum. Dagur sagði, að Óskar hefði þvert á móti setið í öðru af tveimur sætum Samfylkingarinnar í borgarráði.
„Mér fannst hann standa sig vel og njóta sín vel í minnihluta," sagði Dagur. Hann sagði að Óskar hefði stundum lagt aðrar áherslur en aðrir í minnihlutanum en það hefði ekki truflað samstarfið. Þvert á móti hefði það verið það liður í því að veita meirihlutanum aðhald.