Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu, sem Fasteignamat ríkisins reiknar út, hækkaði um 0,8% í júlí miðað við mánuðinn á undan. Síðastliðna 3 mánuði hækkaði vísitalan um 1,2%, síðastliðna 6 mánuði hefur hún lækkað um 1,8% og hækkun síðastliðna 12 mánuði var 2,6%.
Fram kemur í ½5 fréttum Kaupþings, að ýmsar vísbendingar séu um að fasteignaverð muni taka að lækka á árinu en miklar sveiflur hafi verið í verðþróun vegna lítilla umsvifa á fasteignamarkaði. Hugsanlegt sé að ýmsir gæðaþættir spili inn í þau viðskipti sem eigi sér stað nú, en þá sé ljóst að niðurfelling stimpilgjalda á fyrstu íbúð þann 1. júlí hafi aukið umsvif að undanförnu.
Kaupþing bendir einnig á, að þrátt fyrir um það bil 0,8% hækkun milli mánaða nemi raunlækkun fasteignaverðs um 0,1% milli mánaða og síðustu tólf mánuði hafi fasteignaverð lækkað um 10,9% að raunvirði.