Meistaramótið í
hrútaþukli fer fram í Sauðfjársetrinu á Ströndum á sunnudag. Sauðfjársetrið stóð fyrst fyrir keppni í þessari þjóðlegu íþrótt árið 2003 og hefur aðsókn hefur stöðugt aukist að mótinu. Að vanda verður keppt í
tveimur flokkum, flokki reyndra hrútaþuklara og þeirra sem óvanir eru
að leggja mat á hrúta.
Á vefnum strandir.is segir: „Hrútadómarnir
sjálfir fara þannig fram að Jón Viðar Jónmundsson ráðunautur fer fyrir
dómnefnd sem metur fjóra íturvaxna hrúta með nútíma tækjum og tólum og
raðar þeim í gæðaröð fyrirfram. Síðan reyna keppendur sig við matið á
hrútunum með hendur og hyggjuvit að vopni og reyna að komast að sömu
niðurstöðu og dómararnir. Þeir óvönu láta duga að raða hrútunum í sæti
frá eitt til fjögur og færa rök fyrir máli sínu. Þeir vönu gefa hins
vegar hrútunum stig fyrir einstaka þætti eins og t.d. bakbreidd, útlit
og samræmi og fara þá eftir stigakerfi sem bændur gjörþekkja.“
Veglegir
vinningar eru í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum og sigurvegari
vana flokksins mun auk verðlauna fá afhentan farandgripinn „Horft til
himins“ sem er tileinkaður minningu Brynjólfs Sæmundssonar ráðunautar á
Hólmavík.