Verið að ganga frá nýjum meirihluta

Óskar Bergsson í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun.
Óskar Bergsson í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Billi

Viðræður standa yfir um myndun nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur en samstarfi Sjálfstæðisflokks og F-lista hefur verið slitið. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er gert ráð fyrir því að gengið verði formlega  frá samkomulagi um meirihlutasamstarfið síðar í dag.

Gert er ráð fyrir að Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, verði borgarstjóri og Óskar Bergsson, borgarfulltrúi framsóknarmanna, verði formaður borgarráðs.

Þetta er fjórði meirihlutinn, sem myndaður er á kjörtímabilinu, sem hófst vorið 2006. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu fyrsta meirihlutann að loknum borgarstjórnarkosningum. Sá meirihluti sprakk í október 2007 og Samfylking, VG, Framsóknarflokkur og F-listi mynduðu meirihluta. Í janúar á þessu ári gekk Ólafur F. Magnússon, F-lista, hins vegar til liðs við sjálfstæðismenn og myndaði þriðja meirihlutann, sem nú hefur verið slitið.

Hvorki Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri og borgarfulltrúi F-lista, né Hanna Birna sátu fund borgarráðs í morgun. Ólafur hefur ekki komið í Ráðhúsið í dag, samkvæmt upplýsingum þaðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert