Stjórn Framsóknarfélags Reykjavíkur hefur veitt Óskari Bergssyni fullt umboð til að ræða við sjálfstæðismenn um myndun nýs borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík.
„Við höfum þann háttinn á í Framsókn að okkar oddviti fær umboð,“ segir Guðlaugur G. Sverrisson, formaður stjórnar Framsóknarflokksins í Reykjavík.
„Hann stýrir þessu og stjórnar, hann Óskar. {...} Ef eitthvað sem gerist sem þarf að láta vita af, þá verð ég látinn vita af því,“ segir Guðlaugur og bætir við að það séu miklar líkur á því að af samstarfinu verði. Hann segist hins vegar ekki hafa fengið það staðfest frá Óskari.
Málið er á viðkvæmu stigi en ekki liggur fyrir hvort Óskar sé búinn að funda með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borginni. Talið er líklegt að Hanna Birna verði borgarstjóri og Óskar formaður borgarráðs, náist samkomulag um myndun nýs meirihluta.