Samstarfið á „endastað"

Núverandi meirihluti D- og F-lista var myndaður í janúar.
Núverandi meirihluti D- og F-lista var myndaður í janúar. Árvakur/Árni Sæberg

Ljóst er að meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokksins og F-listans er komið á „endastað“ og breytingar óhjákvæmilegar, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Þar vegur þyngst að sjálfstæðismenn telja að samstöðu skorti til að takast á við erfið verkefni sem framundan eru og felast einkum í fjárhagsáætlanagerð, atvinnumálum og efnahagsmálum. Meirihlutinn þurfi að hafa festu og burði til þess að takast á við efnahagsvandann í þjóðfélaginu og það sé „ekkert gamanmál“.

Óánægja hefur kraumað lengi í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins með að ekki náist að koma ákvörðunum upp úr átakamiðuðu ferli. Það hafi verið undirliggjandi þáttur of lengi í samstarfinu við F-listann.

„Það skortir festu og áræði til að taka sársaukafullar ákvarðanir. Í staðinn snýst allt um persónu Ólafs F. Magnússonar og endalaus aukaatriði, sem taka alltof mikinn tíma.“

Óánægjan er ekki ný af nálinni í samstarfinu, samkvæmt heimildum, heldur hafa þessi atriði verið „rædd aftur og aftur og aftur“. Og nú er svo komið að sjálfstæðismenn „eru löngu komnir að þolmörkum“.

Málin voru rædd á fundi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Ólafs F. Magnússonar í gær og eftir það af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins.

Ekki er þó búið að loka neinu, en samkvæmt heimildum vill allur þorri sjálfstæðismanna fara út úr samstarfinu. Borgarfulltrúar fengu „skýr skilaboð“ úr baklandinu í gær og hafa raunar fengið þau nokkuð lengi. „Menn bara sjá sig ekki geta varið þetta lengur.“

Í hnotskurn
» Hanna Birna Kristjánsdóttir og Ólafur F. Magnússon funduðu frá 12 á hádegi til 19 í gærkvöldi.
» Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tók þátt í fundinum um tíma.
» Einhugur er meðal borgarfulltrúa flokksins sem funduðu í gærkvöldi.
» Ólafur, Hanna Birna og Vilhjálmur sitja fund borgarráðs kl. 9.30 í dag.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka