Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 6 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni. Brotin áttu sér stað frá því í janúar og fram í maí á þessu ári á heimili þeirra þegar stúlkan var 11 ára. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða stúlkunni 2,5 milljónir króna í bætur. Þá var hann dæmdur til að greiða 1,2 milljónir í sakarkostnað.
Um er að ræða þyngsta dóm, sem kveðinn hefur verið upp vegna kynferðisbrots og jafnframt er um að ræða hæstu miskabætur sem dæmdar eru í slíku máli.
Maðurinn játaði að mestu sök, þar á meðal að hafa oft haft samræði við stúlkuna eða allt að tvisvar í viku.
Í niðurstöðu dómsins segir að maðurinn hafi verið sakfelldur fyrir mjög alvarleg kynferðisbrot gagnvart stúlkubarni sem var í upphafi 11 ára en að mestu 12 ára þegar brotin voru framin. Voru brotin framin á heimili stúlkunnar og mannsins þar sem stúlkan átti sér griðarstað.
„Brot ákærða voru einstaklega gróf og ófyrirleitin, en hann hafði á um fjögurra mánaða tímabili m.a. margsinnis samræði við stúlkuna og endaþarmsmök. Voru brotin til þess fallin að valda stúlkunni verulegum skaða. Á ákærði sér þær málsbætur einar að hann hefur játað sök," segir í dómnum.
Þar kemur fram að Hæstiréttur hafi á liðnum misserum almennt þyngt refsingar vegna kynferðisbrota og með vísan til þess er refsing mannsins ákveðin 6 ár. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í byrjun júní.
Varðandi ákvörðun um bætur til stúlkunnar er vísað til þess, að maðurinn hafi misnotað aðstöðu sína á mjög grófan hátt aðstöðu sína. Stúlkan hafi nýlega flutt til Íslands og talað litla sem enga íslensku. Hafi hún leitað til mannsins, sem hafi veitt henni hlýju og síðan misnotað það gróflega.
Í dómnum kemur fram, að maðurinn giftist móður stúlkunnar í Taílandi árið 1999. Þau fluttu til Íslands en stúlkan varð eftir í Taílandi og kom ekki til Íslands fyrr en árið 2006.
Símon Sigvaldason, héraðsdómari, kvað upp dóminn.