„Þetta er næsti kafli í farsanum í boði Sjálfstæðisflokksins," segir Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, um væntanlegan meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í borgarstjórn.
Svandís segist vonsvikin að Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokks, skuli hafi ákveðið að vera sá sem bjargar Sjálfstæðisflokknum. „Ég hefði ekki haldið að væri það hlutverk sem hann vildi að yrði skrifað í sögubækur um hann," segir Svandís.
Svandís segir að ástandið í borginni sé mjög snúið og að borgarstarfsmenn og Reykvíkingar séu orðnir hundleiðir á ástandinu.
„Sjálfstæðismenn eru búnir að vera með þvílíkan sirkus í gangi allt þetta kjörtímabil, þetta verður næsti kafli í því," sagði Svandís og bætti við að skortur sé á skynsemi í borgarmálum í Reykjavík.