Ólafur F. Magnússon fráfarandi borgarstjóri kom í Ráðhús Reykjavíkur laust fyrir klukkan tvö, í fyrsta sinn eftir að uppúr samstarfi hans og Sjálfstæðismanna slitnaði. Hann segist hafa verið gabbaður og notaður af Sjálfstæðisflokknum og það ekki í fyrsta sinn.
Hann segir að sér hafi orðið ljóst að samstarfið væri komið að endimörkum þegar Sjálfstæðismenn hafi farið á taugum yfir vondri útkomu í skoðanakönnun. Það hafi þó ekki hvarflað að honum að gefast upp. Hann segist staðráðinn í því að vinna áfram að borgarmálum. Mótlætið hafi hert hann. Hann segist hafa verið notaður af Sjálfstæðismönnum til að fella Tjarnarkvartettinn, en það sé ekki í fyrsta sinn sem hann sé svikinn af Sjálfstæðismönnum.
Hann segist hafa orðið fyrir skipulegu einelti í borgarstjóratíð sinni og hann óski sér þess að slíkt verði aldrei endurtekið í stjórnmálasögunni.