Flengingar ekki alltaf ruddalegt eða ósiðlegt athæfi

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur sýknað karlmann af ákæru fyrir kynferðisbrot og líkamsárás gegn tveimur sonum fyrrum kærustu mannsins. 

Maðurinn var m.a. ákærður fyrir að rasskella drengina tvívegis að móður þeirra viðstaddri og bera olíu á þá að því búnu. Að mati dómara braut maðurinn ekki gegn drengjunum þeim kynferðislega og gerði sig ekki sekan um líkamsárás eða brot gegn barnaverndarlögum. Taldi dómurinn ljóst, að tilefni flenginganna hafi verið að drengirnir höfðu verið óþekkir.

„Í þessu máli liggur ekkert mat fyrir á því að refsing sem ákærði beitti drengina með samþykki móðurinnar og að henni viðstaddri hafi verið til þess fallin að skaða þá andlega eða líkamlega. Ekkert liggur heldur fyrir um það að drengirnir hafi orðið fyrir slíkum skaða. Þótt það sé skoðun dómara að það sé óheppilegt og óæskilegt að flengja börn, er varhugavert að slá því föstu hér að það falli ætíð undir það að vera yfirgangur, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi," segir m.a. í dómnum. 

Maðurinn var einnig ákærður fyrir að hafa ráðist á konuna og barið hana á rassinn með belti. Þeim bar saman um að þetta hefði verið þáttur í kynlífsathöfn og  konan hefði samþykkt að maðurinn slægi hana með þessum hætti. Þau greindi hins vegar á um það hvort maðurinn hafi gengið lengra en konan samþykkti og neitað að hætta er hún bað hann um það.

Dómurinn taldi að ekki væri alveg ljóst hversu langt samþykki konunnar til árásar mannsins náði og var vafinn metinn manninum í hag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka