Framsóknarfélög styðja Óskar

Óskar Bergsson ræðir við fréttamenn í Ráðhúsinu.
Óskar Bergsson ræðir við fréttamenn í Ráðhúsinu. mbl.is/Frikki

Stjórnir kjördæmissambands framsóknarmanna í Reykjavík, Framsóknarfélags Reykjavíkur og Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík funduðu sameiginlega í hádeginu í dag. Fram kom einróma stuðningur við Óskar Bergsson borgarfulltrúa framsóknarmanna í Reykjavík og ákvörðun hans um að ganga til viðræðna við Sjálfstæðisflokkinn um myndun nýs meirihluta í Reykjavík.
 
„Ljóst er að við slit meirihlutasamstarfs Sjálfstæðisflokks og F-lista var komin upp óviðunandi staða fyrir íbúa Reykjavíkur. Við það varð ekki unað og því varð að leita leiða til að mynda starfhæfan meirihluta í Reykjavík og tryggja nauðsynlega festu við stjórn borgarinnar út kjörtímabilið.

Það var nauðsynlegt fyrir Reykjavíkurborg og þjóðina í heild að hefja nýja framsókn á sviðum efnahags- og atvinnumála og tryggja ábyrga fjárhagsáætlunargerð á erfiðum tímum.
 
Þrátt fyrir fullyrðingar um mögulegt meirihlutasamstarf svokallaðs Tjarnarkvartetts var ljóst að þær byggðu á tálsýn og klækjum Samfylkingar og Vinstri grænna sem afhjúpuðust þegar sögusagnir voru dregnar til baka þegar á gærdaginn leið.
 
Þá lá fyrir þegar í maí sl. að ekki væri samstaða í minnihlutanum um uppbyggingu í atvinnumálum. Óskar Bergsson stóð einn að tillögu um áframhald undirbúnings að Bitruvirkjun sem Vinstri græn og Samfylking lögðust alfarið gegn. Þessi afstaða flokkana var ítrekuð í samtölum milli manna í gærdag," að því er segir í yfirlýsingu frá framsóknarmönnum í Reykjavík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert