Geir ræddi við formann Framsóknarflokksins

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde.

„Ég er mjög ánægður með það að flokkarnir tveir skuli hafa náð saman úr því að slitnaði upp úr fyrra samstarfinu. Nú er ljóst að þetta verður kjörtímabil Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að tíu mánuðum frátöldum,“ segir Geir H. Haarde forsætisráðherra um meirihlutaskiptin í borginni. Hann telur ekki leika vafa á því að samstarfið verði traust og öflugt og öruggt sé að samstarfið haldi út kjörtímabilið.

„Við töluðum saman um þetta, við formaður Framsóknarflokksins, og vorum sammála um að þetta horfði til heilla,“ segir Geir. Meira vill hann ekki segja um viðræðurnar, en segir formenn stjórnmálaflokkanna oft tala saman.

„Ég tel reyndar að þessir flokkar muni einbeita sér að því að gera góða hluti í atvinnumálum sem er mjög mikilvægt við núverandi aðstæður, bæði fyrir borgarbúa og efnahagsmálin í heild,“ útskýrir Geir og svarar einfaldlega játandi þegar blaðamaður spyr hvort hann telji að vænta megi breytinga í afstöðu borgarinnar til Bitruvirkjunar.

„Ég hef margsagt það að ég tel að Hanna Birna muni rífa upp fylgið hjá Sjálfstæðisflokknum með sínum félögum. Ég tel ljóst að það verði og tel allar líkur á að Framsóknarflokkurinn muni líka bæta myndarlega við sig,“ svarar Geir spurningunni um áhrif meirihlutaskiptanna á fylgi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í könnunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka