Gísli Marteinn: Ræktuðum illa sambandið við framsókn

Gísli Marteinn Baldursson.
Gísli Marteinn Baldursson. Valdís Þórðardóttir

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir á heimasíðu sinni að borgarfulltrúar flokksins hafi ræktað illa sambandið við Framsóknarflokkinn í fyrra samstarfi flokkanna í borginni.

„En nú erum við aftur komin í meirihluta með Framsókn. Oddvitarnir frá því síðast eru horfnir á braut, Björn Ingi til annarra starfa og Vilhjálmur vék til hliðar. Ég er spurður hvernig við getum treyst Framsóknarmönnum aftur eftir svikin síðast. Ég svara því til að síðast ræktuðum við illa sambandið á milli flokkanna þegar mest reið á. Fyrir vikið vantreystu framsóknarmenn okkur og eina vitræna skýringin á slitum þeirra síðast finnst mér vera að þeir héldu að við værum að mynda annan meirihluta bak við þá. Gamlir framsóknarsleðar fullyrtu það við Björn Inga. Það var hinsvegar fjarri sanni og það var ekki fyrr en ég fékk símhringingu frá Vilhjálmi, þar sem ég sat og át rækjubrauð í Höfða ásamt Óskari Bergssyni, að það rann upp fyrir mér að meirihlutinn væri sprunginn.

Fyrst þá hófum við máttlausar tilraunir til að brjótast inn í samdrátt hins laglausa Tjarnarkvartets. Þeim tilraunum okkar lauk þegar Óskar Bergsson kom til okkar í fundarherbergi Reagans og Gorbatsjovs í Höfða og sagði: „Þetta er búið“. Ég efast um að leiðtogar stórveldanna hafi verið mikið svekktari 20 árum fyrr, en við urðum á þeim tímapunkti.

Aumingja Óskar fékk væna gusu af svekkelsi framan í sig, þótt hann fullyrti að hann hefði ekki vitað hvað Björn Ingi aðhefðist. Ég hef ekki talað mikið við Óskar eftir þetta, en það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég talaði við hann í síma á dögunum að fram að þessum ósköpum áttum við ágætt samstarf sem var hreinskilið þótt við værum oft ósammála. Nú tökum við upp þann þráð og ég hef enga ástæðu til ætla annað en að samstarfið verði traust," að því er fram kemur á vef Gísla Marteins.

Vefur Gísla Marteins 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert