Samkvæmt verðskrá Norðlenska matborðsins ehf. fyrir sauðfjárafurðir í haust fá bændur um 15% meira fyrir alla kjötflokka miðað við 2007 og greiðslur fyrir útflutningskjöt hækka um 29%. Verðhækkunum til framleiðenda verður að mestu veitt út í verðlagið og segir Sigmundur E. Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, að gera megi ráð fyrir 10 til 14% hækkun til neytenda.
Vegið meðalverð á dilkakjöti til bænda var 363 krónur fyrir hvert kíló haustið 2007. Stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda lagði til í vor að lágmarksverð yrði 461 kr. Ennfremur var samþykkt að kjöt til útflutnings hækkaði einnig um 98 kr. kílóið og færi í 335 kr. Samkvæmt verðskrá Norðlenska er það 305 kr. og á fjórum helstu flokkunum á innanlandsmarkaði er mismunurinn á verðskránni og viðmiðunarverðinu 39 til 47 krónur á kíló.
„Þetta er langt undir væntingum sem bændur hafa í ljósi kostnaðarhækkana,“ segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Hann bendir á að áburður hafi hækkað um 68 kr. á hvert framleitt kg að meðaltali á árinu en hækkunin á afurðaverðinu nemi 58 kr. „Þetta gengur ekki,“ bætir hann við og segir mikilvægt að menn setjist niður og fari yfir allan ferilinn. Hafa beri í huga að bændur fái ekki nema liðlega 30% af endanlegu verði. „Það gengur ekki að bændur sitji uppi með allt tapið,“ segir hann.
Sigmundur segir að viðmiðunarverð LS þýði 20-25% verðhækkun á markaði og það gangi ekki. Svínakjöt hafi til dæmis hækkað um 16% á sl. tveimur árum og nautakjöt um 11%. Lambakjötið hafi hækkað um 6-7% í fyrra og mikil hækkun til viðbótar kæmi niður á sölu kjötsins.
Sala á dilkakjöti dróst saman um 4% á síðastliðnum 12 mánuðum. Haraldur segir að samdrátturinn þýði ekki sjálfkrafa að ekki sé hægt að hækka afurðaverðið meira til bænda, því mikil hagræðing hafi átt sér stað í þessum geira á undanförnum árum.