Fram kemur í tilkynningu
frá Ljósmæðrafélagi Íslands að atkvæðagreiðslu um boðun verkfallsaðgerða meðal félaga
LMFÍ sé nú lokið. Tillaga stjórnar LMFÍ um boðun fimm sjálfstæðra verkfalla var
samþykkt með 98-99% greiddra atkvæða. Metþátttaka var í
atkvæðagreiðslunni en yfir 90% atkvæðabærra ljósmæðra tóku þátt.
Verkfallsaðgerðir hefjast 4. september
Verkföllin beinast gegn sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum og
heilsugæslustöðvum í rekstri ríkisins og verða þau sem hér segir:
Hefst Lýkur
1. verkfall
4. september kl. 00 - 5. september kl. 24
2. verkfall
11. september kl. 00 - 12. september kl. 24
3. verkfall
17. september kl. 00 - 19. september kl. 24
4. verkfall
23. september kl. 00 - 26. september kl. 24
5. verkfall
29. september kl. 00 - ótímabundið
Ríkið taki ábyrgð
Stjórn LMFÍ leggur áherslu á að samningar náist áður en til aðgerðanna kemur og treystir á að ríkisstjórn Íslands geri sér grein fyrir alvöru málsins og veiti viðsemjendum umboð til að ná árangri í viðræðum.
“Ábyrgðin liggur hjá ríkinu, við höfum gripið til þess afarkosts sem verkfallsboðun er en kosningin sýnir okkur að ljósmæður standa af heilum hug að baki forystunnar og munu ekki una óbreyttu ástandi” segir Guðlaug Einarsdóttir, formaður félagsins, í tilkynningunni.
Kröfur ljósmæðra eru skýrar
Þá segir að jósmæður hafi frá upphafi lýst yfir vilja, við samninganefnd ríkisins, um að ganga að þeim samningi sem nú þegar hefur verið gerður við flest félög innan BHM og felur m.a. í sér 20.300 kr hækkun allra grunnlauna.
Viðræður stranda hins vegar á kröfu ljósmæðra um að fá menntun sína og störf metin að verðleikum í samræmi vð aðrar stéttir í þjónustu hins opinbera með svipaða menntun.
Þessari kröfu hefur Ljósmæðrafélag Íslands haldið á lofti í mörg ár og eru ljósmæður því langþreyttar á ástandinu.
Næsti samningafundur í kjaradeilu LMFÍ og ríkisins er boðaður þann 26. ágúst.