Marsibil Sæmundardóttir, varaborgarfulltrúi Framsóknarflokks, segist í samtali við Fréttablaðið í dag ekki styðja nýjan meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn Reykjavíkur. Hún segist hafa gert Óskari Bergssyni, borgarfulltrúa, grein fyrir þessu. Óskar sagðist í gærkvöldi hafa rætt við Marsibil í gær og þau myndu ræða aftur saman fyrir hádegi í dag.
Marsibil segir við Fréttablaðið að hún hafi engan áhuga á að koma Framsókn eða Óskari illa en hún hafi ekki trú á þessu samstarfi en með stuðningi við það væri hún að samþykkja framgöngu sjálfstæðismanna á kjörtímabilinu og hvernig pólitík þeir hafi ástundað.
Þá segist Marsibil vera í ákveðnu samstarfi við Tjarnarkvartettinn og bundist honum vissum böndum.