Töluverðar umferðartafir eru á Reykjanesbraut við Lækjargötu, þar sem mikill olíuflekkur er á götunni. Lögreglan, slökkvilið og hreinsunaraðilar eru að störfum. Búast má við umferðartöfum næsta klukkutíma, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Umferðartafir hófu að myndast við hringtorgið á gatnamótum Reykjanesbrautar og Lækjargötu um fjögur leytið í dag.
Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var verið að hreinsa upp olíu sem hafði lekið í kjölfar umferðaróhapps. Um var að ræða töluvert mikið magn af olíu.
Að sögn lögreglu var óskað eftir aðstoð Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins auk Vegagerðarinnar sem kallaði út hreinsunarbíla.