Pétur Már Ólafsson hefur keypt hlut Snæbjörns Arngrímssonar í Bjarti. Pétur Már hefur rekið útgáfufélagið Veröld síðan árið 2005 og síðan árið 2007 hefur Veröld verið hluti af Bjartur-Veröld, sem eitt fyrirtæki með tvö aðskilin dótturforlög. „Þetta eru aðeins breytingar á eignarhaldi, það verður sama stefna og verið hefur.
Snæbjörn er formlega farinn út sem eigandi en við verðum þó áfram í mjög góðu sambandi og hann mun áfram fylgja eftir ákveðnum bókum og ákveðnum höfundum,“ segir Pétur Már, en Snæbjörn hefur dvalið í Danmörku undanfarin misseri þar sem hann rekur bókaforlagið Hr. Ferdinand, ásamt því að sinna störfum fyrir Bjart.
„Það fylgir því mikil ábyrgð að taka við Bjarti,“ bætir Pétur Már við. „Þetta er flaggskip íslenskrar fagurbókmenntaútgáfu og við munum ekki fara að breyta kúrsinum, enda Bjartur sinnt sínu með miklum myndarbrag til þessa. En Bjartur og Veröld verða áfram tvö mjög ólík forlög innan sömu samsteypu.“