Búa í húsbíl og langar á Vog

Meðferðarstöð SÁÁ, Vogur
Meðferðarstöð SÁÁ, Vogur mbl.is/Árni Sæberg

„Það væsir í sjálfu sér ekkert um okkur hérna,“ segir heimilislaus maður sem býr ásamt félaga sínum í húsbíl á höfuðborgarsvæðinu. „En það getur orðið frekar kalt á nóttunni, enda hitarinn bilaður. Það versta er samt hvað maður er niðurbrotinn andlega.“

Báðir bíða mennirnir þess að komast í meðferð á Vogi, en þeir segjast vera brennivínskarlar af gamla skólanum. „Þórarinn [Tyrfingsson] kallar okkur steingervinga; það eru svo fáir eftir sem eru bara í brennivíninu.“

Annar mannanna hafði búið í bíl þar til félagi hans bauð honum að búa með sér í húsbílnum fyrir tæpri viku. „Það var sannkölluð himnasending, enda frekar erfitt að sofa í bílnum með allt dótið.“

Edrú samfleytt í níu ár

Báðir mennirnir segjast hafa háð áratugalanga baráttu við Bakkus. „Á síðustu 30 árum hef ég örugglega samanlagt verið edrú í 18 ár, lengst í 9 ár í einu,“ segir annar.

Hinn segist hafa verið allsgáður í heilt ár þar til nýverið.

Á bindindistímabilinu hafi hann verið atvinnulaus og stundað AA-fundi tvisvar til þrisvar á dag. „Það var bara það sem þurfti til að koma mér í gegnum daginn.“ Það var svo þegar hann réð sig í vinnu sem krafðist að jafnaði 16 tíma vinnu af honum á sólarhring, auk þess sem yfirmaðurinn skyldaði hann oft til að vinna í fríum sínum, sem aftur fór að halla undan fæti. Sá bíður eftir svari frá Vogi, en hinn hefur þegar fengið að vita að hann muni komast inn um helgina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert