Alvarlegt flugatvik varð þegar fleki losnaði af bol TF-FIG í aðflugi að Kennedy-flugvelli í New York á fimmtudaginn var, hinn 14. ágúst. Flugvélin er vöruflutningaflugvél Icelandair af gerðinni Boeing 757-200. Um borð voru tveir flugmenn og tveir farþegar. Þá sakaði ekki við óhappið.
Rannsóknarnefnd flugslysa (RNF) var gert viðvart og hefur hún fengið gögn um málið frá bandarískri systurstofnun sinni, NTSB.
Bragi Baldursson, aðstoðarforstöðumaður RNF, sagði að um væri að ræða hlíf sem er hluti af ytra byrði flugvélarbolsins og því myndaðist ekki gat á flugvélina.
Ekki er vitað hvernig hlífin losnaði en Bragi sagði að um þekkt vandamál væri að ræða í flugvélum af þessari gerð og hafa nokkur flugfélög lent í þessu. Framleiðandinn hefur m.a. gefið út leiðbeiningar um breytingar sem gera þarf á þessum stað á flugvélarbolnum.
Bragi taldi að atvikið hefði ekki skapað hættu fyrir flugvélina, þótt atvikið sé metið alvarlegt. Gert verður við flugvélina í New York áður en hún flýgur á ný.