Okkur var mjög brugðið," segir Lilja Björk Guðmundsdóttir, sem stödd er á Torrevieja á Spáni en í nótt var brotist inn í hús sem hún dvelur í ásamt fimm Íslendingum, og miklum verðmætum stolið.
„Við vöknuðum í morgun og búið var að taka 6 síma, tvær myndavélar, upptökuvél, ipod, og peninga, sem lágu á náttborðinu og annars staðar í húsinu," segir Lilja. Brotist var inn um glugga á annarri hæð þriggja hæða húss sem er í eigu Íslendings.
„Það hefur greinilega verið fylgst vel með okkur, glugginn var lokaður, en við sáum einhver ummerki á gluggasillunum," segir Lilja og bætir við að þegar þau vöknuðu tóku þau eftir að seðlaveski, sem búið var að tæma, lá fyrir utan hurðina og lyklarnir voru í skránni. „Við höldum að einn hafi klifrað upp á aðra hæð, fundið lyklana og hent þeim niður," segir Lilja.
Að sögn Lilju var haft samband við lögreglu en hún hafi ekki komið á staðinn þar sem ekki neitt hafði verið brotið. „Við förum á mánudag og gefum skýrslu."
Fleiri Íslendingar hafa nýlega lent í því sama á Torrevieja svæðinu. Lilja segist vita til þess að fartölvu, myndavél, og vegabréfi var stolið um hábjartan dag, á meðan fólkið var sofandi inni í húsinu. Þá lentu aðrir Íslendingar í því að verðmætum skartgripum var stolið innan úr húsi á meðan fólkið var í sólbaði við sundlaugina, og hurðir ólæstar.
„Það er mjög óhugnanleg tilfinning að vita til þess að maður sé sofandi og einhver sé að sniglast i kringum mann og taka eigur manns," segir Lilja og bætir við að hún sé fegin því að allir séu heilir á húfi.