Skipulagsstofnun telur að breikkun Reykjanesbrautar um Hafnarfjörð, frá Strandgötu að Krýsuvíkurvegi, sé ásættanleg en stofnunin hvetur til þess að framkvæmdaleyfi verði skilyrt aðgerðum til að draga úr rykmengun á framkvæmdatíma. Þetta er niðurstaða mats Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum breikkunarinnar.
Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar kemur fram að tvöföldun Reykjanesbrautar frá Strandgötu að Krýsuvíkurvegi er sjálfstæður hluti heildarverkefnis sem lýtur að tvöföldun Reykjanesbrautar milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja.
Markmið framkvæmdanna um að mæta auknu umferðarflæði í gegnum Hafnarfjörð sem og bætt tenging Hvaleyrarholts við Reykjanesbraut mun hafa jákvæð áhrif umferðarflæði og umferðaröryggi á svæðinu.
Hætta á auknum gegnumakstri við Hvaleyrarskóla
Helstu neikvæðu áhrif framkvæmdanna á umferðaröryggi er hætta á auknum gegnumakstri við Hvaleyrarskóla. Skipulagsstofnun telur að fyrirhugaðar aðgerðir til að halda niðri hraða við skólann séu afar brýnar til að slysahætta aukist ekki í kjölfar framkvæmdanna. Gangi aðgerðir eftir, muni framkvæmdirnar í heild hafa fremur jákvæð áhrif á umferðaröryggi.
Skipulagsstofnun telur jákvætt að ákveðið hafi verið að lækka götuna og hliðra henni frá því sem upphaflega var áformað og með því móti að draga verulega úr áhrifum umferðarhávaða í nálægðri íbúðarbyggð þrátt fyrir breikkun vegarins og aukna umferð. Mikilvægt er að fylgjast með áhrifum aukinnar umferðar og meta hvort nauðsynlegt verði að grípa til frekari mótvægisaðgerða þegar umferð fer að nálgast 37.000 bíla á sólarhring sem gert er ráð fyrir að verði um árið 2024, að því er segir í áliti Skipulagsstofnunar.
Skipulagsstofnun telur að framkvæmdaraðili hafi sýnt fram á að ekki sé líklegt að loftmengunarefni verði ofan viðmiðunarmarka reglugerða um loftgæði fyrir árið 2024. Með þeirri undantekningu að óvissa er um styrk svifryks. Skipulagsstofnun telur hins vegar að breikkun vegarkaflans á Reykjanesbraut milli Strandgötu og Krýsuvíkurvegar hafi ein og sér óveruleg áhrif á styrk svifryks.
Þá tekur Skipulagsstofnun undir ábendingar Umhverfisstofnunar um að búast megi við verulegri rykmengun á meðan framkvæmdir standa yfir og hvetur Hafnarfjarðarbæ til að skilyrða framkvæmdaleyfi aðgerðum til að draga úr rykmengun á framkvæmdatíma.
Skipulagsstofnun telur að hvernig til tekst um áhrif framkvæmdarinnar og starfsemi sem henni fylgir á umhverfið sé háð verktilhögun og mótvægisaðgerðum sem kynnt hafa verið við meðferð málsins og áhrifum á framkvæmda- og rekstrartíma. Skipulagsstofnun telur sérstaklega mikilvægt að þannig verði staðið að verki að ekki sé hætta á raski á fornminjum og hrauni á framkvæmdatíma.