Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði fyrir helgi en þó að það hafi hækkað ögn í morgun á ný, þá virðast þessar lækkanir ekki hafa mikil áhrif á bensínverð hér á Íslandi.
„Við tökum stöðuna tvisvar á dag... hver veit hvað verður á morgun eða seinni partinn í dag," sagði Elías Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri fjármála hjá N1 í samtali við mbl.is.
Elías Bjarni sagði að ef heimsmarkaðsverð og gengi þróist þannig þá muni eldsneytisverð lækka um leið.
Már Erlingsson innkaupastjóri hjá Skeljungi sagði að ef einhverjar breytingar verði á eldsneytisverði til landsmanna þá sé líklegra að það lækki. „Eins og staðan er í dag þá eru ekki líkur á að við hækkum verðið," sagði Már.
Verð á hráolíu hækkaði á heimsmarkaði í morgun í 114,33 dali en á föstudaginn var lækkaði verðið um 1,24 dali tunnuna niður í 113,77 dali.