Lottóvinningurinn síðastliðinn laugardag er einn af þeim allra stærstu sem Íslendingar hafa fengið en þá fékk einn vinningshafi tæpar 66 milljónir. Akureyringur fékk 106 milljónir úr Víkingalottó í fyrra.
„Vinningurinn fer að minnsta kosti á topp fimm listann,“ segir Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár, sem hitta mun vinningshafann síðar í dag. Miðinn var keyptur í Leifasjoppu í Iðufelli.
Stefán sagði að vinningurinn yrði greiddur til vinningshafa eftir einn mánuð eins og venjan er. Þá mun vinningshafinn hafa fengið fjármálaráðgjöf hjá sérfræðingum KPMG. „Þannig róar fólk sig niður og lagðar eru forsendur fyrir því að peningarnir nýtist sem allra best.“
„Við höfum heyrt alls konar kjaftasögur um gjaldþrot hjá þessu fólki sem hefur fengið stóra vinninga en það er alls ekki okkar reynsla. Auðvitað er fólk jafn misjafnt og það er margt en reynslan er sú að vinningar hafa komið sér afar vel,” segir Stefán.
Lottóvinningar eru skattfrjálsir.