Menn á vegum kínverska sendiráðsins hafa hirt grænmetisúrgang frá garðyrkjubúum. Bændur hafa kvartað um að þeir fari um garðana í leyfisleysi og einn þeirra óttast afskipti heilbrigðiseftirlits af málinu. Sveitarstjórinn segir kvartanir á misskilningi byggðar.
Þorleifur Jóhannesson bóndi á Hverabakka gaf mönnum á vegum kínverska sendiherrans leyfi til að hirða skemmt grænmeti og afskurð við gróðurhús sín. Kínverjarnir báðu síðar um leyfi til að hirða það sem gengi af úr görðum og var það leyfi einnig veitt. Komur þeirra urðu hinsvegar tíðari og nú berast kvartanir um að þeir fari einnig í leyfisleysi um aðra garða og í aðrar hrúgur þar sem er afskurður.
Reynir Jónsson bóndi í Reykási segir að Kínverjarnir sæki grænmetið á flottum bílum í eigu sendiráðsins eða sendiherrahjónanna. Það sé hinsvegar ljóst í hans huga að grænmetið sem um ræðir sé ekki mannamatur og þess vegna hafi því verið hent. Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri, segir fólkið hafa villst inn í aðra garða en það hafði fengið leyfi til að hirða úr. Hann hafi gert athugasemd við kínverska sendiráðið.