Lögreglan á Suðurnesjum handtók á tíunda tímanum í gærkvöldi karlmann sem sló ökumann dráttarbifreiðar föstu hnefahöggi í andlitið á Hringbraut norðan við Grófina. Dráttarbifreiðin var að flytja bifreið árásarmannsins af vettvangi að ósk lögreglunnar. Maðurinn missti meðvitund um tíma og liggur á gjörgæsludeild á Landspítalanum í Fossvogi.
Að sögn lögreglu var árásarmaðurinn handtekinn og færður á lögreglustöð. Honum var sleppt að lokinni skýrslutöku og má vænta þess að verða ákærður fyrir líkamsárás.
Maðurinn sem varð fyrir árásinni var undir eftirliti lækna til öryggis í nótt, en hann var kominn til meðvitundar í gærkvöldi. Hann mun gangast undir frekari rannsóknir í dag.