Börn selja börnum tóbak í Borgarnesi

Nýleg könnun á vegum Samráðshóps um forvarnir í Borgarbyggð leiddi í ljós að unglingar virðast eiga afar auðvelt með að kaupa tóbak í Borgarnesi en það sama gildir ekki um sölustaði annarsstaðar í sveitarfélaginu. Fréttavefurinn Skessuhorn greinir frá þessu.

Þar segir að á öllum sölustöðum, sem könnunin hafi verið gerð á í Borgarnesi, hafi unglingar verið afgreiddir með tóbak án þess að vera spurðir um aldur.

Á fimm stöðum af ellefu í sveitarfélaginu voru börnin spurð um skilríki en þeir staðir voru allir í dreifbýli sveitarfélagsins. Þar eru kaupmenn því að standa sig að öllu leyti betur en kollegar þeirra í Borgarnesi, hvað þetta snertir.

„Skýringin á þessum mun er sennilega sú að hér í Borgarnesi er afgreiðslufólk upp til hópa mikið yngra en í dreifbýlinu og oft er afgreiðslufólkið sjálft unglingar. Skiljanlega er erfitt fyrir 15-16 ára ungling að neita að selja öðrum unglingum á sama aldri tóbak, einkum ef verslunin sem í hlut á hefur ekki sett nægilega skýrar reglur um það hverjir mega afgreiða tóbak og hverjir ekki,” segir Hanna S Kjartansdóttir, forvarnarfulltrúi í Borgarbyggð, í samtali við Skessuhorn.

Hún segir að ástandið hefur ekkert breyst frá síðustu könnun sem gerð var í október í fyrra. Þá gátu unglingar keypt tóbak á sjö stöðum af níu sem kannaðir voru. „Það er margsannað að auðveldari aðgangur unglinga að tóbaki eykur reykingar í þeirra hópi. Reykingar grunnskólabarna í Borgarbyggð eru staðreynd og við þurfum öll að leggjast á árarnar til að vinna gegn því,“ segir Hanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert