Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík og verðandi borgarstjóri, sagði í fréttum Útvarpsins í kvöld, að starfsmenn Reykjavíkurborgar þurfi ekki að óttast fjöldauppsagnir. Ólafur F. Magnússon, núverandi borgarstjóri, sagði í dag að til skoðunar sé í borgarkerfinu að skerða launakostnað um 8%.
Ólafur las á blaðamannafundi í morgun upp úr minnisblaði fjármálastjóra borgarinnar þar sem fjallað er um hugsanlegan niðurskurð launakostnaðar. Hanna Birna sagði í fréttum Sjónvarpsins að hún hefði ekki séð þetta plagg enda væri fjármálastjórinn undirmaður borgarstjóra. Um væri að ræða hugmyndir sem menn ræddu sín á milli.
Þá sagði hún borgarstjóra brjóta trúnað með því að lesa upp úr minnisblöðum sem væru trúnaðarmál. Hins vegar væru engar tillögur af þessu tagi til meðferðar í borgarstjórn.