Skýr skilaboð til Rússa

Á fundi utanríkisráðherra aðildarríkja NATO sem haldinn var í Brussel í dag kom fram skýr stuðningur við viðleitni Frakka og Finna til að stilla til friðar í átökum Georgíumanna og Rússa. Skilaboðin til Rússa frá fundinum eru skýr, segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra.

Fundur utanríkisráðherranna var haldinn til að samræma stefnu NATO-ríkjanna vegna átakanna í Georgíu og ræða framhald mála, sagði Ingibjörg. 

Skilaboð fundarins til Rússa eru skýr, þeim ber að standa við samkomulag sem þeir hafa undirritað, en einn liðurinn í því er að rússneskar hersveitir hverfi aftur til þeirra staða sem þeir voru á áður en átökin brutust út, sagði Ingibjörg. Virða beri landamæri og fullveldi Georgíu.

Yfirlýsingu fundarins er að finna á vef NATO.

Þá var og ákveðið að einstök NATO-ríki muni veita Georgíu mannúðaraðstoð, en bandalagið sjálft aðstoði við að endurbyggja undirstöðuþætti samfélagsins, s.s. tölvukerfi og lofthelgiseftirlit. 

Georgía hefur sótt um aðild að NATO, og á fundi í ráðherraráði bandalagsins í desember verður ákveðið hvort Georgía fái heimild til að hefja aðlögunarferli fyrir aðild. Á fundinum í Brussel í dag var ákveðið að stofna samráðsvettvang fyrir Georgíu og NATO til að fylgja eftir ákvörðuninni um upphaf aðlögunarferlisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert