Geir H. Haarde forsætisráðherra segist enn vera þeirrar skoðunar að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Hann telur hins vegar rétt að íslensk stjórnvöld stefni að því að uppfylla Maastricht-skilyrði evrópska myntbandalagsins um upptöku evru sem fyrst, óháð aðild að sambandinu.
„Það eru almennir hagsmunir okkar að gera það óháð Evrópusambandinu," segir forsætisráðherra í viðtali við Fréttablaðið í dag.
„Við munum uppfylla öll Maastricht-skilyrðin ef við náum þeim árangri sem að er stefnt og lýst í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og þá verður ekki nein ástæða til að taka upp annan gjaldmiðil því þá verður kominn sá stöðugleiki sem nauðsynlegur er," segir hann.
Geir upplýsir í viðtalinu að frekari umbætur standi til á Íbúðalánasjóði, félagslegi hluti lánveitinga verði tekinn út og aðgreindur frá öðrum, búinn til heildsölubanki og breytingar gerðar á ríkisábyrgð.