Rós og ráð gegn rugli

Dagur B. Eggertsson ávarpar fund samfylkingarfólks nú síðdegis.
Dagur B. Eggertsson ávarpar fund samfylkingarfólks nú síðdegis. mbl.is/Golli

Fjölmennt var á fundi samfylkingafélagsins í Reykjavík síðdegis þar sem Dagur B. Eggertsson, oddviti flokksins í borginni, fór yfir stöðu borgarmálanna. Þá voru kynntar aðgerðir flokksins á næstu dögum, en til að mynda geta borgarbúar átt von á því að verða stöðvaðir á förnum vegi af fulltrúum flokksins.

Ætla þeir að afhenda viðmælendum sínum rós, samning um að gleyma ekki því sem á undan er gengið og loks rauðar pillur, „ráð gegn ruglinu,“ sem Dagur gantaðist með að hafa skrifað upp  á fyrir borgarbúa svo þeir gætu  „þraukað í tvö ár.“

Örvæntingarfull tilraun

„Það sem nú er gert er gert í trausti þess að það gleymist. Þetta er örvæntingarfullur krampi tveggja flokka sem fóru á taugum út af lélegri niðurstöðu í skoðanakönnun sumarsins,“ sagði Dagur um meirihlutaskiptin í borginni.

Hann sagðist ekki trúa því, að kjósendur gleymdu þessu í næstu kosningum, það væri hreinlega goðsögn að kjósendur væru fljótir að gleyma.

Þá kallaði Dagur eftir útskýringum frá sjálfstæðisflokknum á því hvernig stæði á því að flokkurinn ýtti burt málum og fyrirheitum fyrir þann mann sem þeir störfuðu með á hverjum tíma, en borgarfulltrúinn vill síður nota orðið „smáflokkur,“ það væri of stórt orð yfir einn mann.

Ætla að styðja Marsibil

„Minnihlutinn mun tryggja að hún fái notið sín og kjósa hana inn í einhverjar nefndir. Það mun liggja fyrir á morgun hvaða nefndir það verða,“ sagði Dagur aðspurður um hvort og þá hvernig Samfylkingin hygðist styðja Marsibil Sæmundardóttur, sem  var varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins en hefur nú sagt sig úr flokknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert