Ruslakarlar öskureiðir

Starfsmenn Sorphirðunnar óttast að verið sé að fara úr öskunni í eldinn með því að einkavæða hluta eða alla sorphirðu í Reykjavík eins og meirihluti Borgarstjórnar Reykjavíkur vill. Það geti skilað sér í verri þjónustu og bakveikum starfsmönnum.

Óskar Tómas Ágústsson flokkstjóri sem nýlega var heiðraður fyrir fimmtíu ára starf í öskunni , spyr sig afhverju borgin þurfi að spara ef hún hafi efni á fjórum borgarstjórum á fullum launum. Hann segist óttast að þeir sem eldri eru verði látnir fjúka fyrst.

Jóhann Bjarnason flokkstjóri í 20 ár segir að starfsmenn séu almennt óánægðir með þessa umræðu og óttist um sinn hag. Hann segir þetta góðan vinnustað, þar sem fólki líði vel og meðalstarfsaldur sé tólf ár. Þarna fái ennfremur margir vinnu sem ekki eigi möguleika annars staðar. Hann segist óttast og reynslan úr nágrannasveitarfélögunum sýni að fólki sé sagt upp og sparnaðurinn tekinn út á bakinu á þeim sem eftir verði. Bent hefur verið á að sorphirða séu tíu prósentum ódýrari þar sem þjónustan hefur verið boðin út. Jóhann segir sorp losað á viku fresti  Í Reykjavík en tíu daga fresti  þar sem þessi þjónusta hafi verið boðin út.  Tíu prósentin séu því að hluta til eða öllu leyti vegna meiri þjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert