Sleppa pöllunum en mótmæla fyrir utan ráðhúsið

Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna, mótmælti með félögum sínum …
Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna, mótmælti með félögum sínum í ungliðahreyfingum Tjarnarkvartettsins í janúar. Ómar Óskarsson

Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna, segir að ungliðahreyfingarnar muni ekki mæta á pallana í ráðhúsi Reykjavíkur á morgun er nýr meirihluti tekur við í borginni. Hinsvegar munu Ungir jafnaðarmenn ásamt Ung vinstri grænum efna til mótmæla fyrir utan ráðhúsið, Vonarstrætismegin, klukkan 9:30.

Hvetur Anna Pála alla þá, sem eru óánægðir með þróun mála í borginni, að mæta og taka þátt í mótmælunum. Segir hún þetta leið Reykvíkinga til að sýna að þeir séu ekki sáttir. Borgarstjórnarfundurinn hefst klukkan 10.

Í janúar stóðu ungliðahreyfingar Tjarnarkvartettsins svonefnda fyrir mótmælum á pöllum ráðhússins er meirihluti Sjálfstæðisflokks og F-lista tók við meirihlutanum í borgarstjórn. Í samtali við mbl.is segir Anna Pála að ekki sé stefnt á pallana að þessu sinni enda andartak pallana liðið og verði ekki endurtekið. Segir hún ástæðuna þá að þau hafi ekki áhuga á að taka þátt í þeirri pólitík sem á sér stað inni í ráðhúsinu.

Meðal annars verður farið í stóladans fyrir utan ráðhúsið í fyrramálið og sá sem vinnur leikinn verður borgarstjóri og sá sem tapar fær að vera formaður borgarráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert