Strætóferðum fjölgar á ný

Tíðni strætóferða eykst á 9 strætóleiðum auk þess sem breytingar verða á þjónustu í Hafnarfirði og Garðabæ þegar ný vetraráætlun Strætó tekur gildi sunnudaginn 24. ágúst næstkomandi.

Strætisvagnar munu í vetur ganga á fimmtán mínútna fresti á virkum dögum á leiðum 1, 2, 3, 4, 6, 11, 12, 14 og 15. Í sumar hafa liðið þrjátíu mínútur milli ferða. Fjórir vagnar munu því ganga á hverri klukkustund á þessum leiðum í stað tveggja eins og verið hefur í sumar, að því er segir í tilkynningu.

Breytingar verða jafnframt á leiðum 1, 21 og 22. Leið 21 mun nú aka eftir Suðurhrauni og Austurhrauni við Marel, til og frá verslun IKEA, sem staðsett er í Garðabæ. Enginn strætisvagn hefur hingað til ekið á þessu svæði og er því um hreina viðbót að ræða, samkvæmt tilkynningu.

Jafnframt verða þær breytingar í Hafnarfirði að akstur í Vallarhverfi færist frá leið 22 yfir á leið 1. Leið 22 mun því einungis sinna Norðurbænum og Hrauninu í Hafnarfirði en Vallarhverfið bætist við leið 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert