Aðstoð borgar sig: Tekjuhátt fólk í greiðsluvanda

„Það er eitt sem er eftirtektarvert. Fólk með háar tekjur og miklar eignir er að lenda í greiðsluerfiðleikum. Nokkur dæmi eru um að fólk með yfir eina milljón í tekjur á mánuði er í vandræðum með afborganir. Það er í takt við þá þróun sem hefur átt sér stað. Fjölskyldur hafa tekið stór lán til að fjármagna neyslu,“ segir Björgvin Guðjónsson, fjármálaráðgjafi hjá GH Ráðgjöf.

Björgvin, sem er löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali, segir að hann og Guðrún Hulda Ólafsdóttir lögmaður hafi fundið fyrir því snemma í sumar að margir þyrftu á aðstoð að halda með fjármál sín. Því hafi þau farið af stað með fjármálaráðgjöf. Á þeim stutta tíma sem er liðinn hafi fjölmargir leitað eftir aðstoð.

„Stóri áhrifavaldurinn er gengisfall krónunnar fyrr á árinu. Það hefur þýtt að afborganir af háum erlendum lánum hafa hækkað. Eins eru margir þjakaðir af greiðslu neyslulána, t.d. yfirdráttarlána og afborgana af kreditkortum,“ segir Björgvin.

Þó að margir leiti sér aðstoðar þegar allt er komið í hnút segir Björgvin að fleiri séu orðnir meðvitaðir um að leita sér hjálpar þegar í óefni stefnir. Það geti sparað heilmikla fjármuni og auðveldað að vinda ofan af erfiðri fjárhagslegri stöðu. Oft taki það ár að koma fjármálum heimila á beinu brautina en í sumum tilfellum sé þetta ferli sem taki tvö til fimm ár.

GH Ráðgjöf sér meðal annars um að greina stöðu hvers og eins, skrá eignir, veðsetningarhlutföll, semja við kröfuhafa um gjaldfallnar skuldir og bjarga fólki frá nauðungarsölu.

„Það getur skipt sköpum að leita sér hjálpar því margir missa fókusinn og tapa yfirsýn í erfiðleikunum. Það getur jafnvel bitnað á vinnu og fjölskyldu fólks.“

Í hnotskurn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert