Eigendur íbúðarhúsnæðis til sölu leita nú allra leiða til þess að hafa tekjur af því, meðan fasteignakaupamarkaður er daufur. Framboð á leiguíbúðum hefur aukist mjög að undanförnu að sögn leigumiðlara og í júlí varð mikil aukning í leiguíbúðalánum hjá Íbúðalánasjóði. Þá voru 1,9 milljarðar króna lánaðir út á leiguhúsnæði, en það sem af er ári hefur sú upphæð verið um eða undir milljarði á mánuði. Það gæti verið tilfallandi en gæti líka verið merki um aukna spennu.
„Ég held að það séu stórar íbúðir að bætast við á markaðinn, sem þarf að borga mikið fyrir á mánuði. Það er ekki mín tilfinning að það sé að bætast mikið við af ódýru leiguhúsnæði á markaðinn. Ég held að menn hafi stórlega ofmetið þennan stóra lúxusmarkað, ekki síst fyrir eldra fólk sem er að minnka við sig,“ segir Gísli Örn Bjarnhéðinsson, framkvæmdastjóri Búseta.