Tuttugasta og níunda alþjóðarallið á Íslandi hófst í dag. Heldur var rallið með óvenjulegri hætti en áður því þeir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, og Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, fengu að vera aðstoðarökumenn með sigurvera rallsins í fyrra, Daníel Sigurðssyni, á hluta leiðarinnar.
„Þetta var alveg magnað,“ segir Stefán. „Ég myndi sko óhikað gera þetta aftur.” Ólafur tók undir þetta og sagðist hafa verið hræddari í bíl hjá leigubílstjóra en hann var í dag. „Bílstjórinn vissi upp á hár hvað hann var að gera. Hver einasta beygja var útreiknuð og þetta gekk allt upp,” segir Ólafur.
Stefán sagðist ekki hafa gert neitt þessu líkt en áður en bætti við að Ólafur hefði farið á fjórhjól.
Í rallinu eru meðal annars farnir tveir hringir í Gufunesi
og var Ólafur með fyrri hringinn og Stefán þann síðari. Báðir voru í miklu
keppnisskapi og mikið kapp lagt á að vera með betri tíma.
Ekki liggur enn fyrir hvor aðstoðarökuþórinn náði betri tíma.
„Það hlýtur að vera ég, “ segir Stefán. „Þetta var jú í mínu umdæmi.“
„Ég bauð mig náttúrulega fram á undan svo Daníel gæti æft hringinn og fengið þá betri tíma með þér,“ skýtur Ólafur til baka.
Þeir félagar sögðust ekki halda að túrinn í dag myndi hafa áhrif á ökulag þeirra í framtíðinni.
„Nema ég lærði að maður á að skilja eftir hraðaksturinn í höndum fagmanna og halda mig sjálfur við góðaksturinn,“ segir Stefán að endingu.
Til að sjá hvor félaganna hafði að lokum betur skal bent á vef Reykjavikurrallsins.