Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, sagði á aukafundi borgarstjórnar í dag, að mörgum borgarbúum líði þannig, að atkvæðin þeirra hafi verið hirt upp úr kjörkössunum og misnotuð í pólitískum hráskinnaleik.
„Það er vegna þess að borgarbúar hafa horft upp á það ítrekað að það hefur verið misfarið með umboð, misfarið með vald," sagði Dagur.
Hann sagði, að það hefði sést í janúar, þegar meirihluti Sjálfstæðisflokks og F-lista var myndaður, að hvergi hafi steytt á málefnum og hugsjónum. Þá hefði örvæntingarfullur hópur fólks, sem hafði hrunið innanfrá, reynt að bjarga því sem bjargað var með því að fá Ólaf F. Magnússon til liðs við sig.
„Allt sem sagt var í janúar hefur komið á daginn. Öll sú skömm sem þá var uppi hefur orðið að áhrínisorðum og sá leikur, sem sjálfstæðismenn létu sér sæma að leika gegn borgarbúum og Ólafi verður í sögunni dæmdur sem einn sá ljótasti, sem um getur," sagði Dagur.
Hann sagði, að Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, hefði ekki reynst hafa bein í nefinu, úthald og sjálfstraust til að standa við þau pólitísku markmið, sem stjórnarandstaðan í borgarstjórinni setti fram í febrúar.
Dagur velti því fyrir sér hvort það væri táknrænt, að Sjálfstæðisflokknum hefði ekki einu sinni dottið í hug að impra á því við hann eða Svandísi Svavarsdóttir, oddvita VG, hvort þau væru til í að reyna að leysa stjórnarkreppuna í borgunni. „Við tökum það sem hrós því það þurfti ekki að spyrja hvort þetta fólk stæði við orð sín," sagði Dagur.
Hann sagði að dagurinn í dag væri því miður ekki dagur til að kjósa, en það væri dagur til að gera það upp við sjálfan sig hvort menn muni einhverntímann skrifa upp á vinnubrögð af þessu tagi. „Verkefni Samfylkingar næstu tvö árin er að gera borgarbúa, hvar í flokki sem þeir standa, stolta af því að vera stuðningsmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík," sagði Dagur.