Mönnunum tveimur sem létust í vinnuslysi í Hellisheiðarvirkjun í gær hafði verið bannað að fara inn í rörið af verkstjóra. Verkstjórinn brá sér frá en þegar hann kom til baka fann hann mennina tvo um meter frá opi rörsins.
Tókst honum að draga mennina út en þeir voru þá án lífsmarks. Lífgunartilraunir báru ekki árangur. Það er Stöð 2 sem skýrir frá þessu.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er það almennt svo að fari fólk inn í súrefnislaust rými missir það mjög fljótt meðvitund og kann þá að látast úr súrefnisskorti.
Rúmenarnir tveir höfðu unnið í ár hjá Altaki og voru þeir báðir fjölskyldumenn. Mennirnir voru að ljúka vinnudegi þegar slysið varð.