Landsvirkjun og Jarðboranir hafa undirritað verksamning um borframkvæmdir á Kröflusvæðinu sem marka upphaf djúpborana á háhitasvæðum.Borholan verður sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Upphæð verksamningsins við Jarðboranir er rösklega 970 milljónir króna en áætlað er að kostnaður við djúpborunarverkefnið í Kröflu verði á þriðja milljarð.
Landsvirkjun undirritaði fyrir hönd Íslenska
djúpborunarverkefnisins (IDDP). Vísindamenn víða um heim fylgjast með verkefninu af áhuga og fjöldi innlendra og erlendra sérfræðinga mun koma að rannsóknarvinnu. Þess er
vænst að framkvæmdunum nyrðra ljúki á árinu 2009. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Landsvirkjun og Alcoa greiða fyrir borun
Kröfluholunnar niður á um 3.500 m dýpi en IDDP greiðir fyrir borun frá 3.500 m
niður á 4.500 m dýpi auk annars kostnaðar.
Aðilar að íslenska djúpborunarverkefninu eru auk Landsvirkjunar: Hitaveita Suðurnesja hf., Orkuveita Reykjavíkur, Orkustofnun, Alcoa og StatoilHydro ASA. að auki hafa fengist styrkir til verksins, þar á meðal styrkur að upphæð 3,1 milljón Bandaríkjadala frá Rannsóknarsjóði Bandaríkjanna (NSF) og 1,7 milljón dala frá Alþjóðlegum rannsóknarsjóði landborana (ICDP).
Undirbúningur framkvæmdanna
hefur að mestu verið unninn af sérfræðingum hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR)
og verkfræðistofunni Mannviti, en einnig hefur verið leitað í reynslubanka
sérfræðinga víða um heim, einkum til ENEL á Ítalíu.
Miklir möguleikar á nýsköpun
Agnar Olsen, staðgengill forstjóra
Landsvirkjunar, leggur áherslu á að verkefnið sé afar vandasamt
brautryðjendastarf, þar sem yfirstíga þurfi fjölmörg tæknileg úrlausnarefni
áður en unnt verði að nýta gufu með þeim hita og þrýstingi sem er á þessu dýpi.
„Borun þessarar holu við Kröflu er
líklega eitt mest krefjandi borverkefni sem unnið er að í heiminum um þessar
mundir en ef vel tekst til getur árangurinn af því og framhaldsverkefnum hérlendis
leitt til stóraukinnar nýtingar háhitasvæða víða um heim í fyllingu tímans. Að
auki opnast dyr að margs konar nýsköpun og vöruþróun en nýsköpunarmöguleikar
þessa verkefnis felast annars vegar í þróun á sérhæfðum mælitækjum, tólum og
rannsóknaraðferðum og hins vegar lýtur nýsköpunin að því hvernig ætlunin er að
vinna orku við þessar sérstöku aðstæður.”
Reynslan dýrmætust
Bent S. Einarsson, forstjóri Jarðborana, segir verkefnið marka ný tímamót í sögu orkuvísinda. „Ef allt gengur að óskum verður ekki einungis um að ræða öflun verðmætrar orku heldur líka öflun verðmætrar þekkingar við alveg nýjar aðstæður. Það er afar mikilvægt að nýta og efla forskot okkar Íslendinga á þessu sviði sem liggur í reynslunni ekki síður en fræðilegri þekkingu.
Aldrei verið borað dýpra
Með djúpborunum hefst nýr kafli í orkusögunni þar sem tilraun er gerð til að nýta háhitasvæði með gjörbreyttum hætti og sækja vistvæna orku niður á meira dýpi en dæmi eru um áður. Vonir standa til að djúpholurnar geti orðið allt að 5-10 sinnum öflugri en venjulegar háhitaholur og að þær gefi allt að 40-50 MW rafafl hver um sig.
IDDP verkefnið hefur verið í undirbúningi frá árinu 2000 og þegar framkvæmdum lýkur við Kröflu, taka við djúpborunarverkefni á Hengilssvæðinu og á Reykjanesi.