Flestar endurkröfur vegna ölvunaraksturs

mbl.is

Áttatíu og átta mál komu til kasta endurkröfunefndar, sem fjallar um endurkröfur tryggingafélaga á hendur ökumanna sem valda slysum.  Af þessum málum samþykkti nefndin endurkröfu að öllu leyti eða að hluta í 71 máli. Ástæður endurkröfu voru langoftast ölvun tjónvalds eða í 44 tilvikum.

Á árinu 2006 var heildarfjöldi mála á hinn bóginn 103, og samþykktar endurkröfur að öllu eða einhverju leyti 98. Á síðastliðnum fimm árum, þ.e. á árbilinu 2003 til 2007, var meðalfjöldi mála, sem bárust endurkröfunefnd, 107 á ári. Nefndin segir að þótt fjöldi slíkra mála sé einungis 88 á árinu 2007 sé tæpast unnt að álykta, að tjónsatvikum, sem falla undir endurkröfunefndina, hafi í raun fækkað verulega á því ári miðað við fyrri ár, þótt um einhverja lítilsháttar fækkun kunni að vera að ræða.

Segir nefndin, að þetta skýrist meðal annars af því, að málin, sem eigi undir nefndina, verði einungis að hluta rakin til tjóna, sem urðu á því ári, sem nefndin fékk mál til meðferðar. Oft hafa tjónin, sem komi til kasta nefndarinnar, gerst a.m.k. einu til tveimur árum fyrr. Þá geti einnig orðið nokkuð tilviljanakennt hvoru megin áramóta málasendingar félaga til nefndarinnar kunna að falla.

Í fjárhæðum talið nema þessar endurkröfur samtals tæplega 42,5 milljónum króna og er þá einnig tekið tillit til viðbótarendurkrafna í eldri málum.  Tvær hæstu endurkröfurnar námu 3,5 milljónum króna hvor árið 2007 og sú næst hæsta nam 3 milljónum króna. Alls voru 12 endurkröfur að fjárhæð  500.000 þúsund eða meira á árinu 2007. Á árinu 2006 námu hins vegar samþykktar endurkröfur alls tæplega 29 milljónum króna.

Ölvun tjónvalds var eins og áður segir langoftast orsök endurkröfu eða í 44 tilfellum. Lyfjaáhrif var ástæða endurkröfu í 4 tilvikum. Í 18 málum voru ökumenn endurkrafðir sökum ökuréttindaleysis. Vegna beins ásetnings voru 2 ökumenn endurkrafðir og loks fyrir stórkostlega vítavert aksturslag eða glæfraakstur voru 6 ökumenn endurkrafðir. Árétta ber, að í sumum málum geta ástæður endurkröfu verið fleiri en ein.

Í þeim 44 tilvikum, þar sem mælt var fyrir um endurkröfu vegna ölvunar, reyndust 32 ökumenn, eða 73%, vera yfir efri mörkum umferðarlaga (1,20‰ eða meira vínandamagn í blóði), þ.e.a.s. töldust með öllu óhæfir  til að stjórna ökutækinu.

Í þessum málum voru karlar 61, en konur voru 10 af hinum endurkröfðu tjónvöldum, eða um 14%. Hlutur kvenna í málum af þessu tagi var hins vegar 21% á árinu 2006.  

Ökumenn, er voru 25 ára og yngri, áttu hlut að um 48% mála. Á árinu 2006 áttu þeir hlut að 42% mála.

Í nefndinni sitja lögfræðingarnir Helgi Jóhannesson, formaður, Andri Árnason og Sigmar Ármannsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert